Sagan

 
_ABH4976 (1).jpg

10 ára samantekt Gulleggsins

Gulleggið fagnaði 10 ára afmæli í vor, 2017. 

Í tilefni afmælisins fórum við yfir sögu Gulleggsins og tókum saman tölfræðilegar upplýsingar um árangur þeirra fyrirtækja sem hafa tekið þátt. Haft var samband við þau 90 fyrirtæki sem hafnað hafa í topp 10 sætunum frá upphafi og upplýsingum safnað saman um stöðu þeirra í dag. Þessar upplýsingar voru genfar út í 10 ára afmælisriti Gulleggsins sem má finna hér að neðan.

 

Verðlaunagripir

Þátttakendur Gulleggsins eiga kost á að vinna til veglegra verðlauna, en sigurvegari keppninnar hlýtur Gulleggið sjálft og 1.000.000 krónur í peningum. Ýmis önnur aukaverðlaun eru veitt frá bakhjörlum og styrktaraðilum keppninnar en alls nema heildarverðlaun Gulleggsins yfir 3.000.000 króna.

Á hverju ári er leitað til nýútskrifaðra vöruhönnuða úr Listaháskóla Íslands til þess að hanna verðlaunagripinn.

 
 
2017.jpg

Gulleggið 2017 - hönnuður Kristín sigurðardóttir

Kristín Sigurðardóttir útskrifaðist með BA-gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Gripurinn er unninn í samstarfi við Glit og Kristínu Guðmundsdóttur.

Verðlaunagripurinn er glermót af gulleggi sem sýnir eggið á formi hugmyndar fremur en lokaútkomu. Það sem spilar meginhlutverk í keppninni um Gulleggið er tímabilið frá ómótaðri hugmynd að veruleika. Á sama hátt er gripnum ætlað að endurspegla hönnunarferlið og sýna eggið í mótun frekar en sem ákveðna lokaniðurstöðu. Mótið gefur bæði vísbendingu um hver útkoman verður og leyfir ímyndunaraflinu að njóta sín.

 
2016.jpeg

Gulleggið 2016 - Hönnuðir Auður Inez Sellgren og Elsa Dagný Ásgeirsdóttir 

Auður og Elsa vöruhönnuðir hófu samstarf eftir útskrift í maí 2015 og hafa starfað sjálfstætt síðan þá.

Gulleggið er úr kopar og var unnið í samstarfi við Málmsteypuna Hellu. Kopar hefur verið notaður af mönnum í yfir tugþúsund ár og er fullkomlega endurnýtanlegt efni, þannig að hægt er að líta á verðlaunagripinn í ár sem einskonar gjaldmiðil ef allt fer til fjandans. Í skapandi ferli getur margt farið úrskeiðis en gjarnan leiða mistök til nýrra uppgötvanna. Gripnum er ætlað að minna fólk á að vera opið fyrir breytingum og fagna ófyrirsjáanlegum útkomum.

 
2015.jpg

Gulleggið 2015 - Hönnuður Ágústa Sveinsdóttir

Ágústa Sveinsdóttir útskrifaðist með BA-gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og nemur nú gullsmíði ásamt því að vinna sem sjálfstætt starfandi hönnuður.

Gulleggið 2015 er steypt úr steinleir og brennt við háan hita. Steinleir er viðkvæmur efniviður. Innblástur var sóttur í japönsku viðgerðaraðferðina Kintsugi. Það er hið heimspekilega listform að sjá fegurðina í göllunum eða ófullkomleikanum og undirstrika hann. Fyllt er upp í sprungur með gulli.

2014.jpg

Gulleggið 2014 - Hönnuður Elín Bríta

Elín Bríta er fædd árið 1987 og er búsett í vesturbæ Reykjavíkur. Vorið 2013 útskrifaðist hún með BA gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands og vinnur sem sjálfstætt starfandi hönnuður.

Gulleggið 2014 er samsett úr 17 sexhyrndum einingum sem voru vatnsskornar í CNC tölvufræsara. Verðlaunagripurinn er unninn úr íslensku líparíti, en það þekur um 2% af yfirborði landsins.

 
2013.jpg

Gulleggið 2013 - Hönnuður Steinar Þorri

Steinar Þorri er hafnfirðingur fæddur árið 1989. Hann útskrifaðist 2014 með BA í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands og stefnir á áframhaldandi nám erlendis.

Eggið sem tákn er mjög viðeigandi verðlaunagripur frumkvöðlakeppna sem hvetja til nýsköpunar á hverju ári. Frjósamur hugsunarháttur gefur af sér nýjungar. Gulleggið árið 2013 vísar í mátt hugans og getu til að mynda ótrúlegustu tengingar svo úr verði hugvit. Verðlaunagripurinn er vafinn úr u.þ.b. 50 metrum af vír, þar af um 10 metrar af gylltum vír.

 
2012.jpg

Gulleggið 2012 - Guðný Pálsdóttir

Guðný er fædd árið 1986 og býr í Hlíðunum. Hún útskrifaðist með BA gráðu úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands vorið 2013 og vinnur í ILVA. Stefnan er tekin á áframhaldandi nám seinna meir innan tölvuleikja- eða kvikmyndaiðnaðarins. 

Verðlaunagripur ársins 2012 er úr hlyn, málaður að ofan með gullmálningu og situr á glærum plexi-bakka. Hugmyndin að baki útliti griparins var að taka mjúka og nátturulega form eggsins og gera það grófara og manngert. Einfalt form er orðið flókið en margslungið og spennandi. 

 
Gulleggid_Logo.png