Atmonia sigrar Gulleggið 2017

Viðskiptahugmyndin Atmonia sigraði Gulleggið 2017, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Jón Atli Benediktsson afhenti verðlaunagripinn Gulleggið við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands, laugardaginn 28. október.

1. sæti

Sigurvegararnir hlutu að launum 1.000.000 kr. frá Landsbankanum og aðgang í verkefnið Aðallínu frá Íslandsstofu.

Atmonia þróar byltingarkennt ferli til umhverfisvænnar áburðarframleiðslu á smáskala. Ferlið mun nýta vatn og rafmagn til framleiðslu á áburði á vökvaformi sem hentar til dreifingar með úðakerfi. Þau gera bændum kleift að framleiða sinn eigin köfnunarefnisáburð og minnka kolefnisspor sitt í leiðinni.

2. sæti

Í öðru sæti var Genki Instruments sem hutu jafnframt að launum 500.000 kr. frá Landsbankanum og 10 klst. einkaleyfaráðgjöf frá Marel.

Fyrsta vara þeirra, Wave, er hringur sem gerir tónlistarfólki kleift að hafa áhrif á tónlistarsköpun og flutning í rauntíma með hreyfingum handarinnar. Wave nemur hreyfingar handarinnar, snúning og slátt og leyfir þannig tónlistarfólki að stjórna hljóði, effektum eða senda skipanir á náttúrulegan og einfaldan hátt. Með hugbúnaði sem fylgir Wave getur tónlistarfólk sérsniðið hringinn að sínum þörfum með því að para saman hreyfingar og þær breytingar sem þær hafa á tónlistina. Wave fær tölvur og tækni til að skilja litbrigði mannlegrar tjáningar og leyfir tónlistarfólki að tjá sig á náttúrulegan hátt.

3. sæti

Í þriðja sæti var Taktikal sem hlutu að launum 300.000 kr. frá Landsbankanum og 10 klst. lögfræðiráðgjöf frá ADVEL Lögmönnum.

Taktikal er að þróa hugbúnaðarlausn sem gerir einstaklingum og lögaðilum mögulegt að stofna til viðskipta á örfáum mínútum og í kjölfarið heimila ýmsar sjálfvirkar þjónustur er krefjast viðskiptasambands. Hugbúnaðurinn virkar í öllum snjalltækjum og byggir á sjálfvirkri ferlavél. Lausnin gerir mögulegt að bjóða einstaklingum og lögaðilum í viðskiptasamband — sjálfvirkt og pappírslaust á örfáum mínútum. Þannig geta fyrirtæki sem taka upp lausnina hagrætt í rekstri, minnkað brottfall viðskiptavina og boðið nýjum viðskiptavinum góða upplifun með því að „klára málið“ sjálfir í símanum.

Aukaverðlaun

KPMG veitti 20 klst. í ráðgjöf til Munndropans, en það er munnstykki sem kemur í veg fyrir að fólk gnísti tönnum.

Nova stóð jafnframt fyrir vali fólksins sem er opin netkosning, en þá viðurkenningu hlaut fyrirtækið Ylhýra, en það er hugbúnaður sem kennir íslensku á samtalsformi.

Þetta er í annað sinn sem keppnin er haldin á þessu ári og samanlagt bárust alls yfir 200 hugmyndir auk þess sem 25 einstaklingar skráðu sig án hugmyndar. Sífellt fleiri hafa tekið þátt í Gullegginu með þeim hætti og fengið tækifæri til að taka þátt í verkefnum annarra. Þátttökuhlutfall kvenna var um 40% í heildina sem er hærra en víða annars staðar í sprotaumhverfinu. Undanfarna tvo mánuði hafa þátttakendur sótt námskeið og fengið þjálfun í mótun viðskiptahugmynda og uppbyggingu fyrirtækja og leiðsögn við undirbúning fjárfestakynninga. Keppninni lauk á laugardaginn með kynningu stigahæstu teymanna tíu fyrir dómnefnd.

Eftirfarandi eru þau 10 fyrirtæki sem kepptu til úrslita:

Atmonia:
Byltingarkennt ferli til umhverfisvænnar áburðarframleiðslu á smáskala.

Freebee:
Hugbúnaður sem veitir neytendum aðgang að ókeypis vöru og þjónustu og fyrirtækjum aðgang að rýnihópum.

Genki Instruments:
Wave, fyrsta vara fyrirtækisins, er hringur hannaður fyrir tónlistarfólk. Wave nemur hreyfingar handarinnar, snúning og slátt og þannig getur tónlistarfólk stjórnað hljóði og sett af stað skipanir í rauntíma með einföldum hætti.

Reykjavík Roller Coaster
Upplifun í sýndarverkuleika þar sem notandinn þeytist um í rússíbanahermi í gegnum undur íslenskrar náttúru.

Spontant:
Hugbúnaður sem hjálpar hvatvísum ferðamönnum að finna ævintýri og afþreyingu á síðustu stundu og ferðaþjónustufyrirtækjum að hámarka nýtingu.

Munndropinn:
Dropalaga munnstykki sem þrýstir tungunni niður og kemur þar með í veg fyrir að hægt sé að gnísta tönnum.

Myrkur:
Framleiðsla á leikjaseríu sem notar allra nýjustu tækni til að lágmarka kostnað og auka gæði.

Taktikal:
Hugbúnaðarlausn sem gerir einstaklingum og lögaðilum mögulegt að stofna til viðskipta á örfáum mínútum og í kjölfarið heimila ýmsar sjálfvirkar þjónustur er krefjast viðskiptasambands.

Tasty Rook:
Stafrænir samkvæmisleikir fyrir snjallsíma sem notendur spila augliti til auglitis með fjölskyldu og vinum hvar og hvenær sem er. Fyrirtækið hefur þegar gefið út leikinn Triple Agent.

Ylhýra:
Hugbúnaður sem kennir íslensku á samtalsformi.

Um Gulleggið

Gulleggið er haldið á vegum Icelandic Startups í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Listaháskóla Íslands með stuðningi lykilaðila í íslensku atvinnulífi. Í vor fagnaði Gulleggið tíu ára afmæli en um 2.400 hugmyndir hafa borist í keppnina frá upphafi. Af þeim 100 fyrirtækjum sem hafa hafnað í topp 10 sætunum er tæplega helmingur enn starfandi.

Keppnin er haldin að fyrirmynd MIT háskóla í Bandaríkjunum og Venture Cup í Danmörku. Meginmarkið Gulleggsins er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja.

Icelandic Startups