Ert þú með hugmynd?

Við viljum vekja athygli á því að opið er fyrir umsóknir í Gulleggið haustið 2017! Skráning fer fram inni á vefsíðu Gulleggsins til 21. september og þar má einnig finna gagnlegar upplýsingar. Mögulegt er að skrá sig með eða án hugmyndar líkt og síðustu ár. Ef þú ert með góða hugmynd ertu beðin um að lýsa henni í örfáum orðum, munið að hugmyndin getur verið á byrjunarstigum og því eðlilegt að ekki sé búið að huga að öllum atriðum. Hugmyndin mun þróast á vinnusmiðjunum þar sem þátttakendur fá aðstoð frá sérfræðingum, reyndum frumkvöðlum og stjórnendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Ef þig langar að vera með en ert ekki með hugmynd þá skráirðu þig og við munum tengja þig við teymi sem gætu hugsað sér að bæta við einstakling í teymið sitt.

Hér að neðan má sjá tímalínu Gulleggsins 2017. Þrjár stórar vinnusmiðjur verða í boði fyrir alla þátttakendur þar sem farið verður yfir mikilvæg atriði er snúa að stofnun og rekstri fyrirtækja. Opnunarhátíðin verður haldin hátíðleg í Háskóla Íslands.

Keppnin fagnaði 10 ára afmæli í vor með glæsibrag í Hörpu. Þar var farið yfir söguna og augum beint að árangri fyrirtækja sem hafa tekið þátt frá upphafi. Auk þess var gefin út vegleg samantekt um keppnina; fyrrum þátttakendur, bakhjarla, verkefnastjórnir og áhrif keppninnar á íslenskt samfélag sem finna má hér.

Sigurvegarar Gulleggsins í vor á 10 ára afmæli keppninnar voru Safe Seat, fjaðrandi bátasæti sem verndar hryggsúluna í erfiðu sjólagi. Í kjölfar Gulleggsins komst Safe Seat inn í Startup Reykjavík, viðskiptahraðal Icelandic Startups sem fór fram í sumar.

Frá og með haustinu 2017 breytum við tímasetningu Gulleggsins. Þetta er því í annað sinn sem keppnin er haldin á tíunda afmælisárinu, en keppnin mun framvegis fara fram í september og október í stað vorannar eins og áður hefur verið.

Icelandic Startups